Jarðhitasvæðið við Þeistareyki býður upp á mikla möguleika til jarðvarmavinnslu, en áætluð orkuvinnslugeta svæðisins er um 200 MW.
Uppbygging Þeistareykjavirkjunar hefur nú staðið í tvö ár og er í þessari lotu unnið að uppbyggingu á tveimur 45 MW áföngum. Eins og áður er stefnt að því að rekstur fyrsta áfanga hefjist á fjórða ársfjórðungi 2017 og annars áfanga vorið 2018. Frá upphafi hönnunar og undirbúnings að uppbyggingu virkjunarinnar hefur meginmarkmiðið verið að reisa hagkvæma og áreiðanlega virkjun sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru.
Umfangsmesta ár framkvæmda
Framkvæmdir voru í gangi á verkstað allt árið 2016. Helstu framkvæmdir voru áframhaldandi uppbygging stöðvarhúss og lagning gufuveitu, auk þess sem boranir hófust á vormánuðum. Þá var unnið í hönnun og smíði raf- og vélbúnaðar sem að hluta kom á verkstað í lok ársins og uppsetning hófst. Þegar mest var störfuðu um 240 manns á Þeistareykjum og er þetta umfangsmesta árið í framkvæmdum á verkstað.
Þeistarreykir
7400 m3 af steypu í byggingu stöðvarhúss
Vinna við byggingu stöðvarhúss hélt áfram á árinu 2016, meðal stærstu verkþátta var vinna við uppsteypu í vélarsölum og klæðningu utanhúss auk vinnu við loftræsti-, raf- og pípulagnir. Gert er ráð að byggingu stöðvarhúss ljúki á fyrsta ársfjórðungi 2017.
Heildarlengd gufupípa um 6 kílómetrar
Í upphafi árs 2016 var unnið við málmsuður en forsoðnar voru saman tvær og tvær pípur á Húsavík sem fluttar voru svo á verkstað. Þegar voraði og aðstæður gáfu tilefni til tók við vinna við útlögn pípa, klæðningu þeirra, auk uppsetningu ýmiss búnaðar. Vegna hagstæðs veðurfars var unnið í verkinu alveg fram að jólum. Þann 20. desember var mikilvægum áfanga náð þegar 1. áfangi gufuveitunnar var þrýstiprófaður og tekinn í rekstur. Verklok við gufuveitu eru áætluð á haustmánuðum 2017
280–330°C gráðu heitar borholur
Í ársbyrjun 2016 var undirritaður samningur við Jarðboranir ehf. um borun allt að 10 vinnsluhola. Hófust boranir á Þeistareykjum í lok apríl. Boraðar voru fjórar holur og er nú hafin álagsprófun á tveimur borholum til að meta afköst þeirra og lofa fyrstu niðurstöður góðu. Borun verður haldið áfram á árinu 2017 til að tryggja gufu fyrir annan áfanga virkjunarinnar.

Vél virkjunarinnar komin frá Japan og til Þeistareykja
Á árinu var áfram unnið við hönnun og smíði vélbúnaðar virkjunarinnar. Vinna við uppsetningu á fyrsta kæliturninum hófst í maí og lauk þeirri vinnu í október. Stór áfangi náðist í verkinu þegar vélasamstæða fyrir vél eitt kom til landsins en hún samanstendur af rafala, hverfli og eimsvala, auk ýmiss minni búnaðar. Vélarsamstæðan var flutt til Þeistareykja í desember og var heildarþyngd vagnlestar með aðstoðardráttarbílum um 220 tonn en farmurinn sjálfur 197 tonn. Er þetta ein þyngsta vagnlest sem farið hefur um vegi landsins. Vinna við uppsetningu vélbúnaðarins hófst svo í byrjun ársins 2017.
Íslenskar rafbúnaðarlausnir og vinnuafl
Vinna við hönnun stjórnkerfis hófst í upphafi árs 2016 en þar er ABB verktaki. Meginhluti ársins fór í hönnun og forritun búnaðar en í árslok var stjórnkerfi virkjunarinnar prófað á Akureyri. Var um mjög umfangsmikla prófun að ræða þar sem reynt var að líkja eins vel og hægt er eftir endanlegri virkni stjórnkerfis eins og það mun koma til með að verða á verkstað.
Vinna við hönnun stöðvarveitna, þ.e. rafbúnaðar virkjunarinnar, hófst einnig í upphafi árs 2016, en í því verki er Rafeyri ehf. verktaki. Var unnið að hönnun og smíði búnaðar framan af ári, einkum 11 kV dreifiskápa og 400 V rafbúnaðarskápa. Á haustmánuðum hóf verktaki undirbúningsframkvæmdir á verkstað og í desember var komið með búnað á staðinn. Tengingar við vélbúnað munu vinnast á fyrri hluta ársins 2017.
Hönnuðir og verktakar
Hönnuðir og ráðgjafar vegna byggingar 90 MW Þeistareykjavirkjunar eru samstarfsaðilarnir Mannvit hf. og Verkís hf. Þeim til aðstoðar eru; Tark Arkitektar ehf., Landslag ehf. og Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar.
Fjölmargir verktakar koma að byggingu Þeistareykjavirkjunar og meðal þeirra helstu má nefna:
- LNS Saga og LNS A/S (nú Munck Íslandi) – Verktaki við byggingu stöðvarhúss og lagningu gufuveitu
- Jarðboranir ehf. – Borun vinnsluhola
- Fuji Electric/Balcke-Dürr – Framleiðsla og uppsetning vélbúnaðar og kalda enda
- ABB – Framleiðsla og uppsetning stjórnkerfis
- Tamini– Framleiðsla spenna
- Rafeyri – Stöðvarveitur, þ.e. allur rafbúnaður virkjunarinnar
- Vélsmiðjan Héðinn – Framleiðsla skilja
Áhersla á öryggismál
Í allri starfsemi Landsvirkjunar eru öryggismál forgangsmál, hvort sem um ræðir rekstur stöðva eða framkvæmdir við nýjar virkjanir. Stefna Landsvirkjunar í öryggismálum er slysalaus starfsemi og vellíðan á vinnustað. Til að ná markmiðum um slysalausa starfsemi vinnur Landsvirkjun eftir svokallaðri núll-slysa stefnu. Grundvöllur núll-slysa stefnunnar er að byggja upp öryggismenningu meðal allra starfsmanna þar sem sammælst er um að öll slys megi fyrirbyggja. Árangursrík núll-slysa stefna byggir á því að allir taki þátt í framkvæmd hennar á vinnustaðnum, axli þá ábyrgð sem hún leggur þeim á herðar og setji öryggi sitt og annarra á verkstað í forgang.
Líkt og árið 2015 sátu allir nýir starfsmenn verkefnisins nýliðanámskeið í öryggis- og umhverfsmálum. Árið 2015 sóttu slík námskeið 343 starfsmenn verktaka á Þeistareykjum. Heldur bættist í hópinn árið 2016 og var heildarfjöldi starfsmanna er námskeiðin höfðu sótt kominn í 860 í lok árs, 462 erlenda og 398 íslenska, og námskeiðin orðin 92 talsins. Frá því að framkvæmdir hófust við byggingu stöðvarhúss Þeistareykjavirkjunar og útlögn veitulagna hafa Landsvirkjun og verktakar lokið um 570 þúsund vinnustundum á Þeistareykjum, lang flestum á vegum LNS Saga, aðalverktaka stöðvarhúss og veitna.
Verkefnið hefur ekki að öllu verið áfallalaust og því miður hafa orðið slys á vinnustaðnum, sum hver alvarleg. Alvarlegast þessara slysa var þegar rör úr gufuveitu féll ofan á starfsmann með þeim afleiðingum að hann brotnaði á öxl og viðbeini. Atvikið varð í apríl og starfsmaðurinn var frá vinnu fram á haust en hefur nú náð sér að fullu. Landsvirkjun tekur öll slys, næstum slys og atvik sem verða á vinnusvæðinu alvarlega og leggur áherslu á að halda utan um og bregðast við ábendingum og athugasemdum er snúa að öryggis- og umhverfismálum með að það markmiði bæta framkvæmdina og gera vinnustaðinn öruggari fyrir starfsmenn og umhverfi.
Umfangsmikið starf í umhverfismálum
Við allan undirbúning og framkvæmdir við Þeistareykjavirkjun hefur verið tekið mið af sérstöðu svæðisins og áhersla lögð á umhverfismál. Regluleg vöktun umhverfisþátta hófst árið 2012. Markmiðið með reglubundinni vöktun er að þekkja grunnástand umhverfisþátta svæðisins áður en rekstur virkjunar hefst og vakta þá síðan á rekstrartíma hennar. Nálgast má niðurstöður á vef verkefnisins þar sem einnig má nálgast kynningarmyndbönd um umhverfisvöktun jarðhitasvæða Landsvirkjunar. Auk þess eru niðurstöður birtar í grænu bókhaldi fyrirtækisins.
Á árinu var unnið að fjölmörgum verkefnum er snúa að umhverfismálum. Áframhald var á vinnu við uppgræðslu lands. Alls verða græddir upp um 160 ha af landi sem mótvægi við það land sem fer undir framkvæmdir vegna fyrsta áfanga. Uppgræðsluaðgerðir hafa verið í gangi frá árinu 2013 og á komandi sumri er miðað við að búið verði að sá í öll svæði og þá einungis enduráburðargjöf eftir. Til þessa hefur verið dreift á áhrifasvæði framkvæmdanna um 138 tonnum af áburði og um 9 tonnum af fræi auk þess sem plantað hefur verið um 126 þúsund plöntum. Landsvirkjun leggur mikla áherslu á góða umgengni um framkvæmdasvæðið á framkvæmdatíma og er einn þáttur þess að ganga jöfnum höndum frá fullnýttum námum eftir því sem verkinu vindur fram. Einungis þær námur og þeir hlutar námasvæða standa ófrágengin þar sem efnisnámi er ólokið.
Landsvirkjun leggur áherslu á að allir verktakar sem koma inn á framkvæmdasvæðið fylgi reglum fyrirtækisins í umhverfismálum og vinni í samræmi við þau leyfi og kröfur sem framkvæmdinni hafa verið settar. Umhverfisstefna Landsvirkjunar markar ramma um þær kröfur sem fyrirtækið hefur sett sér og sínum verktökum við framkvæmdir, en þær eru settar fram í útboðsgögnum og eru þannig hluti af verksamningi Landsvirkjunar og viðkomandi verktaka.
Samstarfssamningur um umhverfiseftirlit er við Umhverfisstofnun sem kemur reglulega á svæðið og fylgist með verkframvindu og frágangi við framkvæmdir.
Samtal við samfélagið
Fjölmargt var gert á árinu 2016 til að veita almenningi upplýsingar um verkefnið og framvindu þess. Kynningarmyndbönd um umhverfisvöktun voru gefin út í janúar, fréttabréf var gefið út í mars, upplýsingabæklingur um framkvæmdina gefinn út í júlí og gerður aðgengilegur á vef fyrirtækisins, opið hús var haldið í byrjun júlí og hornsteinn lagður að virkjuninni í september. Auk þessara stærri viðburða var einnig sagt frá verkefninu á heimasíðu þess og tekið á móti fjölmörgum hópum áhugasamra aðila á verkstað. Þá voru einnig haldnir fjölmargir minni fundir með hinum ýmsu hagsmunaaðilum á svæðinu. Áframhaldandi áhersla verður lögð á samtal og samráð vegna Þeistareykjavirkjunar.
Opið hús
Þann 3. júlí var haldið opið hús á Þeistareykjum, þar sem gestum og gangandi var boðið að skoða virkjunina og framkvæmdasvæði hennar. Boðið var upp á stutta kynningu um stöðu verkefnisins og skoðunarferð um svæðið. Gestum var boðið upp á kaffiveitingar og gefinn kostur á að spjalla við starfsfólk um framkvæmdina. Tókst viðburðurinn mjög vel og var fjölmenni, en allt að 300 gestir mættu á svæðið. Ráðgert er að endurtaka leikinn á árinu 2017 og verður sá viðburður auglýstur sérstaklega. Þökkum við þeim fjölmörgu sem mættu og bjóðum þá, sem alla aðra, velkomna á komandi sumri.

Hornsteinn lagður að stöðvarhúsi virkjunarinnar
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, lagði þann 23. september hornstein að Þeistareykjavirkjun. Fjölmenni var við athöfnina sem fór fram í stöðvarhúsinu en auk Guðna tóku til máls; Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og Valur Knútsson, yfirverkefnisstjóri Þeistareykjavirkjunar. Hildur Ríkharðsdóttir verkefnisstjóri og Einar Erlingsson staðarverkfræðingur aðstoðuðu forsetann við hornsteinslagninguna.