Íslendingar vinna 99% allrar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun vinnur þrjá fjórðu hluta þessarar orku.
Landsvirkjun starfrækir fjórtán vatnsaflsstöðvar, tvær jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum víðs vegar um landið.
Við rekstur aflstöðva er lögð áhersla á heildræna sýn þar sem ráðdeild, áreiðanleiki og sambýli starfseminnar við umhverfi og samfélag eru höfð að leiðarljósi.
Vatnsafl: 12.910 GWst
Raforkuvinnsla í vatnsaflsstöðvum Landsvirkjunar árið 2016 var um 12.910 GWst.
Landsvirkjun starfrækir fjórtán vatnsaflsstöðvar víðs vegar um landið á fjórum starfssvæðum.
Á Þjórsársvæði eru sex aflstöðvar með samtals 18 aflvélar og fjölda veituvirkja sem spanna svæðið frá Hofsjökli niður að Búrfellsstöð.
Á Sogssvæði eru þrjár aflstöðvar með samtals 8 aflvélar og veituvirki við Þingvallavatn og Úlfljótsvatn.
Raforkuafhending Landsvirkjunar inn á flutningskerfi Landsnets nam 13.291 GWst árið 2016, sem er 2,2 % minna en árið 2015.
Laxárstöðvar heyra undir Blöndusvæði og eru aflstöðvar á því starfssvæði þrjár með samtals 5 aflvélar og tilheyrandi veituvirki. Við Blöndustöð spanna veituvirki 25 kílómetra langt svæði frá Reftjarnarbungu niður að Gilsá.
Fjórða starfssvæðið er Fljótsdalsstöð, stærsta vatnsaflsstöð landsins, með 6 aflvélar og umfangsmikil veituvirki, meðal annars jarðgöng sem eru samanlagt um 70 km löng. Í Fljótsdalsstöð voru unnar 5.000 GWst á árinu, eða um 37% af heildarorkuvinnslu Landsvirkjunar.
Ítarlegri upplýsingar um vatnsbúskapinn má finna í kaflanum Auðlindir
Hlutur vatnsafls er um 96% í vinnslu Landsvirkjunar og hlutur jarðvarma er 4%.
Jarðvarmi: 496 GWst
Raforkuvinnsla í jarðgufustöðvum Landsvirkjunar árið 2016 var um 496 GWst.
Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að nýta jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Hluti þeirrar stefnu er að gæta þess að vatnsforða jarðhitakerfanna sé viðhaldið með góðu jafnvægi á milli nýtingar og innrennslis í kerfið. Sá hluti vökvans sem ekki er nýttur til raforkuvinnslu er skilinn frá og dælt aftur niður í jarðhitageyminn.
Jarðgufustöðvar Landsvirkjunar eru tvær, í Kröflu og Bjarnarflagi, með samtals þremur aflvélum.
Vindafl: 5 GWst
Landsvirkjun rekur tvær vindmyllur í rannsóknarskyni á svæði sem kallast Hafið og er norðan við Búrfell. Hvor vindmylla um sig hefur uppsett afl 0,9 MW. Rekstur þeirra hefur gengið vel á árinu og lítið hefur verið um truflanir. Raforkuvinnsla þeirra var 5,3 GWst á árinu.
Rekstur aflstöðva
Rekstur stöðva gekk vel á árinu 2016. Fyrirvaralausar truflanir í aflstöðvum fyrirtækisins voru 82, samanborið við 106 á árinu 2015. Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að allar vélar í aflstöðvum fyrirtækisins skuli vera tiltækar 99% af árinu að meðtöldum skipulögðum viðhaldstímabilum. Þetta markmið náðist á árinu. Vélar voru tiltækar 99,9% tímans á árinu, sama tiltæki og var árið áður.
Eftirlit, viðhald og gæsla aflstöðva var í föstum skorðum á árinu.
Landsvirkjun starfrækir samþætt, vottað gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi sem byggist á ISO 9001, ISO 14001, OHSAS 18001 og innra rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi (RÖSK) sem uppfyllir kröfur Mannvirkjastofnunar um rafmagnsöryggisstjórnun. Þýska vottunarstofan TÜV SÜD hefur vottað raforkuvinnslu Landsvirkjunar sem græna raforkuvinnslu og auk þess er öryggisstjórnkerfi upplýsingasviðs Landsvirkjunar vottað samkvæmt ISO 27001.
Fjárfestingar í orkumannvirkjum í rekstri
Viðhald er mikilvægur þáttur í starfsemi Landsvirkjunar. Í ár var ráðist í tvö stór viðhaldsverkefni; við Búrfells- og Laxárstöð, en alls var unnið að 87 fjárfestingar- og endurbótaverkefnum í aflstöðvum á árinu 2016.
Upptekt vélar 4 í Búrfellsstöð
Vinna á staðnum við upptekt vélasamstæðu 4 hófst í Búrfellsstöð í byrjun febrúar 2016. Framkvæmdin gekk einstaklega vel fyrir sig að öllu leyti og var vélasamstæðan tekin í rekstur á áætlun í lok apríl. Skipt var um vatnshjól, leiðiskóflur, leiðiskóflulegur, ásþétti og ýmsa smærri hluti. Aðrir hlutir hverfils voru lagfærðir og yfirborðsmeðhöndlaðir. Sátur rafala voru endurbættar, skipt um talsvert af sáturstöfum og einangrunarkerfi og stuðningskerfi verulega endurbætt. Einnig var kælikerfi vélarinnar endurnýjað.
Mælingar sýna að nýtni hverfilsins jókst um 3–4% við upptektina og vinnslugeta vélarinnar þar með um 12 GWh á ári. Aukin nýtni leiðir þannig til þess að upptektin í heild sinni var arðbært verkefni.
Forsaga framkvæmda
Búrfellsstöð var tekin í notkun árið 1969. Í kringum 1990 voru uppi áform um að stækka stöðina vegna væntanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík. Hönnuð var og boðin út stækkun um 100 MW í öðru stöðvarhúsi á sömu slóðum og nú er verið að vinna að stækkun Búrfellsvirkjunar. Seinkun varð á stækkun álversins og var því framkvæmdum við stækkun einnig frestað.
Um svipað leyti fór fram ástandsúttekt á hverflum gömlu stöðvarinnar sem voru orðnir nokkuð illa farnir vegna sandslits eftir um 20 ára samfellda keyrslu. Sandslitið var svo mikið að nýtni hverflanna hafði lækkað um nokkur prósentustig. Því var ákveðið að fara í gagngera upptekt hverflanna og endurnýja hjól og leiðiskóflur. Verkið var boðið út síðla árs 1995. Hagstæðasta tilboði var tekið, en það fól í sér verulega aflaukningu hverflanna og var því í framhaldinu ákveðið að auka afl stöðvarinnar með víðtækri endurnýjun búnaðar.
Aflaukning 1996–1998
Aflaukning Búrfellsstöðvar fór fram á árunum 1996 til 1998, en þá var skipt um vatnshjól og leiðiskóflur hverfla, sátur rafala og ýmsan annan búnað. Ástimplað afl stöðvarinnar fór úr 210 MW í 270 MW og orkuvinnsla úr 1.800 í 2.300 GWh, aukning um 500 GWh sem er svipað orkuvinnslugetu Búðarhálsstöðvar. Um var að ræða hagkvæmustu framkvæmd sem fyrirtækið hafði nokkru sinni ráðist í. Eftir aflaukningu hefur stöðin auk þess iðulega verið keyrð á yfirafli eða allt að 300 MW. Yfirkeyrslan hefur leitt til slits í hjólunum sem gert hefur verið við reglubundið með ásuðu.
Við ársskoðun vélar 4 í Búrfelli í upphafi árs 2013 kom í ljós sprunga í vatnshjóli hverfils. Við ársskoðun vélar 5 um sumarið fannst sams konar sprunga í vatnshjóli hennar. Skoðun sérfræðinga leiddi í ljós að orsökina má rekja til mikillar ásuðu í hjólin. Í framhaldinu voru skoðaðar ýmsar leiðir til úrbóta sem leiddi að lokum til þess að ákveðið var að endurnýja vatnshjólin ásamt því að framkvæma allsherjarupptekt á öðrum hlutum hverflanna. Einnig var ákveðið að nýta tækifærið til þess að framkvæma endurbætur á rafölum stöðvarinnar.
Vélar teknar upp 2018 og 2019
Gott svigrúm skapast til þessara upptekta fyrstu árin eftir að stækkun Búrfellsstöðvar verður tekin í notkun 2018. Ákveðið var að fara í upptekt fyrstu vélarinnar, vélar 4, á árinu 2016 vegna slæms ástands hennar, en að hinar vélarnar yrðu teknar upp 2018 og 2019.
Laxá III, endurbætur á inntakslóni og hverfli
Laxárstöðvar eru þrjár talsins og hafa verið starfræktar frá árinu 1939.


Framkvæmdir við endurbætur á inntakslóni og hverfli við Laxárstöð III hófust í maí 2016 og eru verklok áætluð í lok febrúar 2017.
Umfang vinnu við inntakslónið er talsvert. Inntakslónið var dýpkað til þess að ná straumhraða í því niður. Útbúin var sérstök sandgildra framan við inntak stöðvarinnar með sandskolunarbúnaði. Útbúin var sérstök ísrenna til þess að fleyta ís frá inntaki stöðvarinnar og fyrirkomulagi inntaks og inntaksrista breytt til að koma í veg fyrir að sandur og ís eigi greiða leið inni í aðrennslisgöng stöðvarinnar.
Einnig voru framkvæmdar steypuviðgerðir á stíflu og í inntaksgöngum. Í hverfli stöðvarinnar var skipt um vatnshjól, leiðiskóflur, leiðiskóflulegur, ásþétti og ýmsa smærri hluti. Aðrir hlutir hverfilsins voru lagfærðir og yfirborðsmeðhöndlaðir.
Forsaga framkvæmda
Laxá fellur úr Mývatni og er lengd árinnar um 59 km. Ánni er gjarnan skipt í efri og neðri hluta og er efri kaflinn um 33 km langur og nær frá Mývatni að gljúfrum við Brúarfoss þar sem Laxárvirkjun er staðsett. Yngsta stöðin, Laxárvirkjun III, var tekin í gagnið árið 1973 og er stöðin neðanjarðar. Orkuvinnsla Laxárstöðva er að meðaltali u.þ.b. 170 GWst á ári, þar af er orkuvinnsla Laxár III um 93 GWst á ári. Við hönnun stöðvarinnar var gert ráð fyrir talsverðri hækkun á stíflu inntakslóns, en núverandi stífla var byggð 1939 fyrir Laxá I. Af hækkun stíflunnar varð aldrei af umhverfisástæðum.
Þessu hafa fylgt ýmis vandamál við rekstur Laxár III, bæði ísvandamál og slit í hverfli sem rekja má til þess að hann vinnur á annarri fallhæð heldur en hann var hannaður fyrir. Auk þess hefur smæð inntakslónsins leitt til þess að sandburður í ánni, sem er talsvert mikill, berst að meginhluta til í gegnum hverfil stöðvarinnar. Þessi vandamál hafa í sameiningu valdið sliti á hverfli og hefur verið gert við slitið með ásuðum. Skipt var um vatnshjól í hverfli stöðvarinnar 1993 eða eftir um 20 ára rekstur.
Áhersla lögð á kynningu
Fyrir nokkrum árum var ljóst að vatnshjólið frá 1993 entist ekki mörg ár í viðbót og var þá ákveðið að skoða hvort möguleg væri samtímis upptekt á hverfli og að endurbæta stíflu og inntaksvirki, án hækkunar, með það að markmiði að minnka vandamál tengd sandi og ís. Auk íslenskra ráðgjafa voru fengnir að borðinu norskir rágjafar með sérþekkingu á sandskolunarbúnaði. Hönnun lá fyrir á miðju ári 2015 og var þá ákveðið að ráðast í framkvæmdir á árinu 2106. Sérstök áhersla var lögð á að kynna og ræða framkvæmdina við heimamenn og aðra þá er málið varðar.