Orkuvinnslu fylgir óhjákvæmilega rask á náttúru og umhverfi sem getur meðal annars valdið umtalsverðum sjónrænum áhrifum.
Ítarleg vöktun
Landsvirkjun leggur ávallt ríka áherslu á að lágmarka það rask sem starfsemin hefur í för með sér, að viðhalda náttúrulegum fjölbreytileika og að færa röskuð svæði eins og unnt er til fyrra horfs. Lögð er áhersla á að umhverfisáhrif séu metin strax á undirbúningsstigi virkjunarkosta, m.a. með víðtækum rannsóknum á umhverfinu og með því að skilgreina meginlínur Landsvirkjunar í hönnun og heildaryfirbragði mannvirkja.
Árlega stundar Landsvirkjun einnig ítarlega vöktun og umhverfisrannsóknir á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Vöktunin og rannsóknirnar eru í mörgum tilvikum unnar í samstarfi við rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga. Mikill fjöldi skýrslna er gefinn út árlega þar sem niðurstöður vöktunar og rannsókna á náttúru og lífríki við orkuvinnslusvæði Landsvirkjunar eru kynntar.
Verkefni sem unnin voru á árinu:
Landslagsmótun og útlit mannvirkja
Á árinu var unnið markvisst við að bæta verkferla varðandi landmótun og útlit mannvirkja í eigu fyrirtækisins. Sett var stefna um landmótun og útlit mannvirkja og unnið að innleiðingu hennar, m.a. með því að skilgreina verklag varðandi landmótun og útlit við hönnun nýrra virkjana. Þá var lagt mat á hvaða aðferðafræði hentar starfsemi Landsvirkjunar við landslagsgreiningu og hvaða kerfi og aðferðir Landsvirkjun gæti nýtt við vistvæna hönnun og skipulag nýrra virkjana. Einnig hófst vinna við mannvirkjakönnun á starfssvæðum fyrirtækisins.
Umhverfisvöktun vegna Fljótsdalsstöðvar (Kárahnjúkavirkjunar)
Í árslok 2017 verða 10 ár liðin frá því að Fljótsdalsstöð var gangsett og er því komið að uppgjöri margra verkefna sem tengjast vöktun á umhverfi og rekstri stöðvarinnar. Meðal þeirra umhverfisverkefna sem unnið var að á árinu er rannsókn á breytingum á framburði aurs og efna þeirra jökuláa sem virkjaðar voru fyrir rekstur stöðvarinnar. Rannsókninni lauk með doktorsvörn, en Landsvirkjun hefur styrkt þá vinnu. Haldinn var opinn fundur á Egilsstöðum þar sem starfsmenn Náttúrustofu Austurlands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Verkfræðistofnunar HÍ kynntu niðurstöður vöktunar og rannsókna á hreindýrastofninum á starfstíma Fljótsdalsstöðvar og báru saman við niðurstöður rannsókna og mælinga fyrir virkjun.
Í samstarfi við Veiðifélag Lagarfljóts var sleppt rúmlega 25 þúsund laxagönguseiðum í sérstaka sleppitjörn í Uppsalaá. Laxaseiðin koma úr klakfiski frá Lagarfljóti og Jöklu sem safnað var haustið 2014. Seiðin gengu svo úr sleppitjörn um mánaðarmót júní/júlí og fylgst verður með endurheimtum næsta sumar.
Þá var unnið að endurmælingum á gróðurreitum og fuglar vaktaðir, ásamt því að lokið var við grjótvarnir í landi Hólmatungu við Jöklu, unnið að rofavörn við Breiðavað við Lagarfljót og bakkavörn í landi Egilsstaða.
Fiskar og vatnsaflsvirkjanir
Haldinn var opinn fundur í samstarfi við Veiðimálastofnun og kynntu starfsmenn stofnunarinnar rannsóknir í ám sem tengjast vatnsaflsvirkjunum. Niðurstöður rannsókna eru, að áhrif virkjana eru með ýmsu móti. Þannig hefur dregið úr veiði í Lagarfljóti og virkjun í Soginu á síðustu öld hafði neikvæð áhrif á urriðastofninn. Hins vegar hefur laxastofn í Þjórsá styrkst, laxveiði í Blöndu aukist og stangveiði hafist í Jöklu eftir að virkjað var.

Matslykill um sjálfbæra orkuvinnslu
Í framhaldi af árangursríkri notkun Landsvirkjunar á alþjóðlegum matslykli um sjálfbæra orkuvinnslu með vatnsafli, svokallaðan HSAP-matslykil, (Hydropower Sustainability Protocol) komu fram hugmyndir hér á landi um að gera samsvarandi matslykil um sjálfbærni orkuvinnslu með jarðvarma eða GSAP-matslykil (Geothermal Sustainability Protocol).
Stofnaður var samráðshópur undir forystu Orkustofnunar með þátttöku Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, HS-Orku og Umhverfisstofnunar við að laga HSAP-matslykilinn að jarðvarmavinnslu. Í sumarbyrjun lágu fyrir drög að GSAP-matslykli vegna undirbúnings jarðvarmavirkjana og var ákveðið að fá alþjólega vottaðan úttektarmann til að prófa lykilinn á undirbúningi Þeistareykjavirkjunar.
Úttektarmaðurinn rýndi vinnu samráðshópsins um nýjan GSAP-matslykil, kynnti sér gögn og undirbúningsvinnu fyrir Þeistareykjavirkjun ásamt því að skilgreina þá hagsmunaaðila og viðmælendur sem hann óskaði eftir að hitta við úttekt á lyklinum en sú úttekt fer fram í janúar 2017.
Áætlað er að lokið verði við úttektarskýrslu og tillögur um breytingar á fyrirliggjandi drögum á fyrri hluta ársins.
Útgefið efni
Árlega stundar Landsvirkjun ítarlegar umhverfisrannsóknir á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins og vegna fyrirhugaðra virkjanakosta. Markmiðið er að leggja mat á hvort og þá hvernig starfsemi Landsvirkjunar hefur áhrif á náttúru og lífríki þessara svæða. Rannsóknirnar eru unnar í samstarfi við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga. Hér er að finna yfirlit yfir helstu rannsóknir í tengslum við náttúru og ásýnd, unnar á árinu 2016.