Segment

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna iðnaðar og notkunar jarðefnaeldsneytis vegur þungt í loftslagsmálum. Ábyrgð fyrirtækja er mikil og þátttaka í samstarfi á alþjóðavettvangi sýnir mikilvægt fordæmi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Section
Segment

Loftslagsráðstefnan COP21

Þjóðir heims eru sammála um að aðgerðir til að sporna gegn hlýnun jarðar séu eitt af brýnustu verkefnum samtímans. Á loftlagsráðstefnunni COP21 í París sameinuðust 195 þjóðir um aðgerðir til að bregðast við hlýnun jarðar vegna loftslagsbreytinga. Þetta er stærsta aðgerð síðustu ára í umhverfismálum á heimsvísu. Í dag hafa 130 aðildarríki fullgilt samkomulagið og er hlutur þeirra í heimslosun á gróðurhúsalofttegundum rétt yfir 80%.

Ísland er eitt þessara ríkja og vinnur nú að aðgerðaáætlun þess efnis að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. Landsvirkjun hefur einsett sér að vera virkur þátttakandi í að ná því markmiði.

Segment

Caring for Climate

Landsvirkjun var meðal þeirra rúmlega 2.000 fyrirtækja sem undirrituðu sáttmálann um Caring for Climate í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París. Sáttmálinn kveður á um að loftslagsbreytingar krefjist umsvifalausra og viðamikilla aðgerða stjórnvalda, viðskiptaheimsins og almennra borgara, ef koma eigi í veg fyrir að velmegun, sjálfbær þróun og öryggi í heiminum hljóti skaða af. Með sáttmálanum skuldbinda fyrirtæki sig m.a til að bæta orkunýtni og draga úr kolefnisspori á vörum, þjónustu og ferlum og upplýsa árlega hvernig til tekst.

Landsvirkjun tók einnig þátt í undirritun yfirlýsingar Festu og Reykjavíkurborgar um markmið í loftslagsmálum en alls undirrituðu 104 fyrirtæki og stofnanir yfirlýsinguna.

Segment
Segment

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á hliðarráðstefnu Parísarráðstefnunnar, „De-carbonising Global Energy Supply“. 

Mynd birt með leyfi The Sustainable Innovation Forum 2015.

Section
Segment

Markmið Landsvirkjunar

Landsvirkjun hefur haldið utan um og upplýst um kolefnislosun fyrirtækisins frá árinu 2006. Í kjölfar undirritunar Caring for Climate sáttmálans skráði Landsvirkjun markmið sín í þessum efnum hjá NAZCA (Non-State Actor Zone for Climate Action).

NAZCA er alþjóðlegur vettvangur þar sem fyrirtækjum, borgum, svæðum, félagasamtökum og fjárfestum gefst tækifæri til að skrásetja markmið sín í baráttunni gegn loftslagsáhrifum.

NAZCA-markmið Landsvirkjunar eru:

  • Að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki eigi síðar en árið 2030.
  • Að fjárfesta í endurnýjanlegri orkuvinnslu, jarðvarma, vatnsorku og vindorku.
  • Að sjá til þess að fjórðungur bílaflota fyrirtækisins verði knúinn með rafmagni árið 2020.
  • Að grípa til ýmissa aðgerða til að draga úr loftslagsáhrifum, m.a. að eiga frumkvæði að átaksverkefni á landsvísu um orkusparnað.
Section
Segment

Kolefnisspor

Kolefnisspor er mælikvarði sem notaður er til að sýna áhrif athafna mannsins á loftslagsbreytingar. Mælikvarðinn vísar til þess magns gróðurhúsalofttegunda sem við losum beint eða óbeint í okkar daglega lífi.

Kolefnisspor Landsvirkjunar er skilgreint sem árleg losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi fyrirtækisins að frádreginni áætlaðri kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun. Heildarlosun frá starfsemi fyrirtækisins á árinu 2016 var um 48 þúsund tonn og hefur losunin dregist saman um 7% milli ára.

Segment
Segment

Allt frá upphafsárum starfsemi sinnar hefur Landsvirkjun unnið að kolefnisbindingu. Í upphafi með landgræðslu og skógrækt og þá í raun ómeðvitað um mikilvægi þeirrar vinnu fyrir kolefnisbindingu og seinni tíma markmið um kolefnishlutleysi. Á árinu 2003 hófst svo markviss vinna við að vakta og rannsaka losun þeirra gróðurhúsalofttegunda sem fylgja orkuvinnslu með vatnsafli og jarðvarma. Árið 2007 var ákveðið að stefna að kolefnisjöfnun starfseminnar og árið 2015 var unnin heildstæð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og ákveðið að markmiðinu um kolefnishlutleysi skyldi náð eigi seinna en árið 2030.

 

Segment

1970

  • Uppgræðsla á starfssvæðum Landsvirkjunar hefst.

2003

  • Rannsóknir á losun frá lónum hefjast.

2006

  • Umhverfisstjórnun hjá Landsvirkjun vottuð skv. ISO 14001.
  • Landsvirkjun tekur þátt í Global Roundtable on Climate Change (GROCC).

2007

  • Fyrsta skýrsla um kolefnisspor (loftlagsbókhald) Landsvirkjunar kemur út.
  • Ákvörðun tekin um að stefna að kolefnisjöfnuði.

2011

  • Tillögur og aðgerðaáætlun til að draga úr loftslagsáhrifum í starfsemi Landsvirkjunar koma út.
  • Vistferligreining gerð á orkuvinnslu í Fljótsdalsstöð.
  • Rannsóknir á náttúrulegu útstreymi við jarðgufuvirkjanir hefjast.

2012

  • Samningar gerðir við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins um bindingu með landgræðslu og skógrækt.
  • Samningur gerður við Kolvið.

2013 - 2014

  • Stefna sett um orkuskipti og samgöngur.
  • Rannsóknir á losun frá Sporðöldulóni hefjast.
  • Verkefni um fjölnýtingu hefst.

2015

  • Heildstæð aðgerðaráætlun gerð í loftslagsmálum.
  • Landsvirkjun undirritar yfirlýsingu Caring for Climate um umsvifalausar aðgerðir til að draga úr loftslagsáhrifum.
  • Markmið er sett um að starfsemi Landsvirkjunar verði kolefnishlutlaus árið 2030.
  • Loftlagssamningur Festu er undirritaður.

2016

  • Nýir samningar gerðir við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins um kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt.

Segment

Þá hefur fyrirtækið í rúma fjóra áratugi staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni aflstöðva sinna. Frá árinu 2011 hefur fyrirtækið jafnframt unnið að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi á skilgreindum svæðum í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Árleg kolefnisbinding á vegum Landsvirkjunar er áætluð um 22.000 tonn CO-ígilda.

Segment
  • IMG_0910.JPG
  • 020.JPG
  • 019.JPG
  • 018.JPG
  • 006.JPG
  • IMG_0903.JPG
  • 021.JPG
  • 023.JPG
  • 033.JPG
  • IMG_0906.JPG
Landgræðslumyndir: Garðar Þorfinnsson ©      Skógræktarmyndir: Einar Gunnarsson ©
Segment

Þá hefur Landsvirkjun frá árinu 2013 kolefnisjafnað starfsemi sína í samstarfi við Kolvið vegna brennslu fyrirtækisins á jarðefnaeldsneyti, flugferða starfsmanna, förgunar úrgangs og vegna losunar á SF6 frá rafbúnaði. Árið 2016 nam þessi losun 968 tonni CO-ígilda. Sú losun hefur verið jöfnuð með bindingu kolefnis í skógarvistkerfum landsins.

Kolefnisspor Landsvirkjunar árið 2016 var 25.204 tonn CO2-ígilda sem jafngildir um 1,8 tonnum CO2-ígilda fyrir hverja unna GWst árið 2016, og hefur lækkað um 6% frá fyrra ári. Kolefnissporið hefur farið lækkandi á síðastliðnum árum og liggur í ár undir meðaltali síðastliðinna 5 ára á sama tíma og orkuvinnsla hefur aukist. Lækkun kolefnissporsins má m.a. rekja til minni losunar á gufu fyrir hverja framleidda orkueiningu í jarðvarmavirkjunum.

Segment

Uppruni losunar gróðurhúsalofttegunda

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Landsvirkjunar má að stærstum hluta rekja til orkuvinnslu með jarðvarma (67%) sem og losunar frá uppistöðulónum vatnsaflsvirkjana (31%). Önnur losun er vegna brennslu eldsneytis, urðunar úrgangs og losunar á SF6-gasi frá rafbúnaði (2%). 

Nokkuð mikill munur er á milli orkuvinnslu með jarðvarma og vatnsafli með tilliti til gróðurhúsaáhrifa. Kolefnisspor fyrir hverja unna GWst með jarðvarma árið 2016 var 62 tonn CO2-ígilda/GWst en kolefnisspor á hverja unna GWst með vatnsafli er -0,454 tonn CO2-ígilda/GWst þar sem unnið er að kolefnisbindingu umfram þá losun sem verður við orkuvinnslu með vatnsafli.

Við nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu á háhitasvæðum er jarðhitavökvi tekinn upp um borholur úr jarðhitageymi á um 2.000 metra dýpi. Jarðhitavökvinn er blanda af vatnsgufu, vatni og ýmsum gastegundum. Jarðhitagas er að stærstum hluta koltvísýringur, oft í kringum 80–95% af massahlutfalli gass, þá brennisteinsvetni (H2S ) sem getur verið frá 5–20%, en aðrar gastegundir, þar á meðal metan (CH4), eru í umtalsvert minna magni (<1%).

Álitamál er hvort líta beri á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum sem losun af mannavöldum eða náttúrulegt útstreymi frá svæðinu. Nokkuð breytilegt er milli landa hvort þetta útstreymi er tekið með í loftslagsbókhaldi vegna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna en Ísland er eitt þeirra landa þar sem þetta útstreymi er hluti af loftslagsbókhaldinu. Nánar má lesa um losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum í grænu bókhaldi Landsvirkjunar.

Section
Segment