Árið 2016 náðist stór áfangi í loftslagsmálum þegar þjóðir heims samþykktu samstilltar aðgerðir í baráttunni gegn hlýnun jarðar með undirritun Parísarsáttmálans. Samkvæmt honum stefna þjóðir heims að því að hnattrænni hækkun lofthita verði haldið vel innan við 2 gráður.
Evrópa hefur nú um árabil verið áberandi í baráttunni gegn hlýnun jarðar og hefur Evrópusambandið sett sér að markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um sem nemur 80–95% fram til ársins 2050. Ljóst er að evrópsk raforkufyrirtæki munu óhjákvæmilega spila veigamikið hlutverk eigi þessi markmið að nást og að útrýma þarf því sem næst allri hefðbundinni raforkuvinnslu með kolum og gasi fyrir árið 2050.
Mikið hefur þegar áunnist í þessum efnum en til að mynda tvöfaldaðist hlutur endurnýjanlegrar orku í raforkuvinnslu innan Evrópusambandslandanna á milli áranna 2004 og 2014, úr 15% í 30%, og var vöxturinn borinn uppi af nýjum vind- og sólarorkuverum, ásamt aukinni notkun lífmassa.
Breytt markaðsumhverfi
Þessi mikla og hraða viðbót umhverfisvænnar raforku hefur einungis verið möguleg vegna inngripa yfirvalda og opinberra styrkja til raforkufyrirtækja, enda hefur verð á mörkuðum engan veginn nægt til að standa undir slíkri uppbyggingu. Yfirvöld hafa þannig beitt verulegum niðurgreiðslum með það að markmiði að auka endurnýjanlega raforkuvinnslu á sama tíma og spurn eftir raforku hefur farið minnkandi.
Opinber inngrip þessi hafa á stuttum tíma leitt til verulegs ójafnvægis á evrópskum raforkumörkuðum þar sem vinnslugeta kerfisins er nú umfram eftirspurn. Þetta ójafnvægi er ein ástæða þess að verð á evrópskum raforkumörkuðum hefur farið hratt lækkandi og er með þeim hætti nú að gömul hefðbundin og mengandi raforkuver sem nýta kol og gas til vinnslu eru víða orðin ósamkeppnishæf en er engu að síður haldið í rekstri með enn frekari opinberum styrkjum, nú af orkuöryggissjónarmiðum þar sem raforkuvinnsla með vind- og sólarorku er veðurháð.
Viðskiptaumhverfi evrópskra raforkufyrirtækja hefur þannig breyst verulega þar sem þau reiða sig í auknum mæli á tekjustrauma í formi opinberra styrkja og rekstrarívilnana sem að endingu eru greiddir af neytendum. Þannig hefur t.d. raforkureikningur þýsks almennings hækkað stöðugt þrátt fyrir að verð á raforkumörkuðum fari lækkandi. Verð á þýskum raforkumörkuðum lækkaði um €37/MWst á milli áranna 2008 og 2016 á sama tíma og sérstakur raforkuskattur til að kosta uppbyggingu grænnar raforkuvinnslu jókst um €52/MWst. Hliðstæða sögu má segja af flestum öðrum Evrópumörkuðum.
Áhersla á millilandatengingar
Sökum ófyrirsjáanleika vind- og sólarorku mun frekari ætluð nýting þessara endurnýjanlegu orkugjafa til evrópskrar raforkuvinnslu kalla á enn frekari notkun stýranlegs varaafls. Hvað þetta varafl snertir er ljóst að hefðbundin kola- og gasorkuver munu enn í næstu framtíð gegna stóru hlutverki en líklegt er að framtíðin muni þó bera í skauti sér aukinn hlut grænni lausna.
Ein slík er aukinn hlutur millilandatenginga, en með þeim gefst færi á að flytja raforku milli svæða, frá svæðum þar sem t.d. tímabundinn vindstyrkur og skýjafar orsakar offramboð raforku og til svæða þar sem jafnvæginu er öfugt farið þá stundina. Lönd Evrópusambandsins hafa þegar sett sér að markmiði að árið 2030 verði umfang millilandatenginga hvers lands á við 15% af uppsettu afli raforkuvinnslukerfis þess lands.
Aukið framlag Íslands til loftslagsmála og betri nýting auðlinda
Líkt og Noregur býr Ísland við þann munað að raforkuvinnsla byggir að öllu leyti á endurnýjanlegum orkugjöfum og ekki síst að stýranleiki vinnslunnar er mikill sökum ríkjandi stöðu vatnsorkuvera. Lagning sæstrengs frá Íslandi til annarra Evrópuríkja er ekki að fullu sambærileg við lagningu sæstrengja frá Noregi suður til annarra Evrópuríkja, en ýmis líkindi eru engu að síður til staðar.
Vísbendingar eru um að sæstrengur kynni markvert að auka framlegð á Íslandi af raforkuvinnslu og tengdum iðnaði, bæta nýtingu auðlinda þjóðarinnar, auka framlag Íslendinga til loftslagsmála, dreifa frekar áhættu þjóðarbúsins og treysta til muna orkuöryggi landsins. Ljóst er að yfirstandandi umbylting í evrópskum raforkumálum og aukið aðgengi að opinberum styrkjum í Evrópu hefur opnað ákveðinn glugga fyrir slíkt verkefni en hvort vitnað verði til Íslands í framtíðinni sem „græns batterís“ fyrir Evrópu verður tíminn að skera úr um.
Aukin verðmæti vatnsafls
Raforkuvinnsla Noregs byggir nær alfarið á stýranlegum vatnsorkuverum og sjá þarlend yfirvöld mikil viðskiptatækifæri í því hlutverki að þjóna sem varaafl fyrir síaukinn hlut vind- og sólarorkuvera sunnar í Evrópu. Hugmynd Norðmanna er þannig að flytja inn ódýra raforku og safna samtímis auknu vatni í eigin virkjunarlón, t.d. þegar vindstyrkur er með mesta móti í Þýskalandi, en flytja síðan aftur út sambærilegt magn raforku þegar þýski vindurinn lætur undan og þarlent raforkuverð rís.
Með þessu fyrirkomulagi aukast tekjur norskrar raforkuvinnslu án þess að unnið magn raforku breytist. Þegar í dag tengja raforkuflutningsmannvirki Noreg og meginland Evrópu og eru Norðmenn með enn fleiri mannvirki í undirbúningi, m.a. til Þýskalands og Bretlands. Í þessu samhengi hefur verið nefnt að Noregur kynni í framtíðinni að þjóna sem „grænt batterí“ fyrir Evrópu og tækifærum í raforkuvinnslu hefur verið líkt við þau tækifæri í olíuiðnaði sem Noregur þegar hefur gripið.