Segment

Markmið Landsvirkjunar er að vera leiðandi í sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun á því sviði.

Ábyrg notkun auðlindanna er okkur mikilvæg og leggjum við því áherslu á að nýta þær auðlindir sem okkur er treyst fyrir sem best og stuðla að nýsköpun.

Section
Segment

Betri nýting auðlindanna

Við hefðbundna vinnslu raforku úr jarðvarma fellur til mikið af efnum og varmaorku sem ekki nýtast til raforkuvinnslunnar. Nýting þessarar orku og efnastrauma frá jarðvarma skapar mikil samlegðaráhrif við aðra starfsemi þar sem hægt er að bæta nýtingu orkuauðlinda, draga úr umhverfisáhrifum og ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri.

Segment

Eimur

Jarðvarmavirkjanir Landsvirkjunar eru staðsettar á Norðausturlandi. Til þess að stuðla að bættri nýtingu þeirra orkuauðlinda og aukinni sjálfbærni samfélaga á svæðinu var verkefnið EIMUR sett af stað sumarið 2016. Skrifað var undir samstarfsyfirlýsingu á stofnfundi í Hofi á Akureyri, fimmtudaginn 9. júní.

EIMI er ætlað að styðja við orkutengda nýsköpunar- og rannsóknastarfsemi á svæðinu en að baki verkefninu standa Landsvirkjun, Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur og Eyþing, samtök sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Verkefnið er til þriggja ára og hafa bakhjarlar þess lagt til stofnframlag upp á 100 milljónir króna. Auk bakhjarla eiga Íslenski jarðvarmaklasinn og Íslenski ferðaklasinn aðild að verkefninu.

Markmið EIMS er að stuðla að aukinni sjálfbærni samfélaga á svæðinu með bættri nýtingu auðlinda og aukinni þekkingu á samspili samfélags, umhverfis, auðlinda og efnahags. Miklar vonir eru bundnar við að með verkefninu megi leggja grunn að margbreytilegri nýsköpun og þar með atvinnusköpun á svæðinu. Horft er til þess að til samstarfsins komi aðilar í ferðaþjónustu, iðnaði og framleiðslu hvers konar og rannsóknaraðilar, m.a. úr háskólasamfélaginu. 

Nánar um EIM

Segment
Segment

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, skrifaði undir samstarfsyfirlýsinguna ásamt Arnóri Benónýssyni, varaformanni Eyþings, Ernu Björnsdóttur, stjórnarformanni Orkuveitu Húsavíkur, og Helga Jóhannessyni, forstjóra Norðurorku.

Segment

Íslenska djúpborunarverkefnið

Íslenska djúpborunarverkefnið er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem hefur það að markmiði að bora dýpra niður í jörðina en áður hefur verið gert og skila þannig allt að tíu sinnum meiri orku úr hverri holu samanborið við hefðbundnar borholur. Með djúpborun er borað djúpt í rætur jarðhitakerfa á háhitasvæðum þar sem talið er að kólnandi kvikuinnskot séu til staðar á nokkurra kílómetra svæði undir yfirborði jarðar.

Fyrirtækin sem stofnuðu til djúpborunarverkefnisins eru HS Orka hf., Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Orkustofnun. Seinna bættust í hópinn Alcoa og Statoil. Rannsóknarverkefnið hefur hlotið styrk úr fjölmörgum vísindasjóðum, þar á meðal U.S. National Science Foundation og International Continental Drilling Program.

Borholan IDDP-1 í Kröflu var fyrsta borholan sem var boruð í Íslenska djúpborunarverkefninu. Borun IDDP-1 lauk 2009 þegar borað var niður á kviku á um 2100 m dýpi en náði ekki niður á það dýpi sem áformað var. Holan var í blæstri með hléum en henni var lokað árið 2012. Vísindamenn á vegum Landsvirkjunar könnuðu orkuvinnslu úr holunni en nánar er hægt að kynna sér holun hér

Verkefnið heldur nú áfram með nýrri holu sem boruð hefur verið á Reykjanesskaganum á svæði HS Orku. Nánar má kynna sér verkefnið og stöðu þess á vefsvæði verkefnisins.

Segment

Jarðböðin við Mývatn

Margir af fjölsóttustu ferðamannastöðum á landinu byggja á aukaafurðum orkuvinnslu. Þar má t.a.m. nefna Jarðböðin við Mývatn. Vatnið sem rennur í lónið kemur frá borholum úr nærliggjandi jarðvarmavirkjuninni Bjarnarflagi sem er í eigu Landsvirkjunar. Vatnið hentar sérlega vel til böðunar vegna efnasamsetningar þess.

Jarðböðin voru opnuð árið 2004 og hafa síðan tekið á móti sívaxandi fjölda innlendra og erlendra ferðamanna sem notið hafa þess að baða sig í lóninu, heimsækja gufuböðin sem byggð eru beint ofan á jarðhitasvæði og njóta veitinganna sem boðið er upp á í einstöku umhverfi Mývatnssvæðisins.

Segment

Charge ráðstefnan

Ráðstefnan var haldin árið 2016 í Reykjavík og var fyrsta alþjóðlega ráðstefnan um mörkun vörumerkja („branding“) í orkuiðnaði. Landsvirkjun var aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar sem 250 fulltrúar fyrirtækja frá 27 löndum sóttu.

Á ráðstefnunni komu saman stjórnendur leiðandi orkufyrirtækja til þess að ræða þau gríðarlegu tækifæri sem felast í því samkeppnisumhverfi sem fyrirtækin starfa í. Um er að ræða málefni sem er í hraðri þróun, bæði frá sjónarhóli fyrirtækja jafnt sem neytenda, og verður leikurinn endurtekinn í október 2017.

Section
Segment

Stuðningur við rannsóknasamfélagið

Landsvirkjun telur mikilvægt að styðja við og stuðla að nýsköpun og þróun í samfélaginu. Í því skyni styrkir fyrirtækið fjölmarga aðila innan fræðasamfélagsins til náms og starfa á vegum endurnýjanlegrar orku og umhverfisrannsókna.

Segment
Segment

Í gegnum Orkurannsóknasjóð Landsvirkjunar eru árlega styrktir námsmenn, rannsóknarverkefni, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar sem vinna að því efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála. Árið 2016 var 56 milljónum úthlutað úr sjóðinum.

Segment

Samstarf við háskólasamfélagið

Landsvirkjun hefur um árabil lagt áherslu á samstarf við háskólasamfélagið til að styðja við þekkingarsköpun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Árið 2013 tóku Landsvirkjun, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands höndum saman um að efla nám og rannsóknir í jarðefnafræði, raforkuverkfræði og á öðrum fræðasviðum sem tengjast endurnýjanlegri orku. Samstarfið felur í sér stuðning Landsvirkjunar um 80 milljónir króna til háskólanna tveggja fram til ársins 2018.

Landsvirkjun gerði samstarfssamning við Hagfræðistofunun Háskóla Íslands fyrir árin 2013–2016 um að efla rannsóknir sem snúa að viðskipta- og hagfræðilegum þáttum orkuvinnslu og auka þannig þekkingu og almennan skilning á áhrifum hennar á íslenskt efnahagslíf.

Segment

Startup Energy Reykjavik

Startup Energy Reykjavík (SER) er viðskiptahraðall sem settur var á stofn í desember 2013 og hefur verið haldinn árlega síðan 2014. Samstarfsaðilar Landsvirkjunar í verkefninu eru Arion banki, Nýsköpunarmiðstöðin og GEORG. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Jarðvarmaklasans og Icelandic Startups.