Framtíðarsýn Landsvirkjunar er að vera framsækið raforkufyrirtæki á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Við störfum í alþjóðlegu umhverfi og viljum vera meðal þeirra bestu sem vinna og selja orku.
Gildi Landsvirkjunar eru framsækni, ráðdeild og traust.
Hlutverk
Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar.
Stefnan hvílir á fimm stoðum sem miða að því að uppfylla megi hlutverk Landsvirkjunar:
Landsvirkjunar er að
hámarka afrakstur af þeim orkulindum
sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra
nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi
Fyrirtækið vill stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins, það er í fararbroddi hvað umhverfismál varðar og áhersla er lögð á samfélagsábyrgð þess.
Meginstefnur
Samfélagsábyrgðarstefna
Í samfélagsábyrgð Landsvirkjunar felst að fyrirtækið skapi eigendum sínum arð, fari vel með auðlindir og umhverfi og stuðli að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins.
Landsvirkjun tryggir að stefnumörkun um samfélagsábyrgð sé framfylgt með því að setja sér markmið og leggja áherslu á eftirtalda þætti í starfsemi fyrirtækisins:
- Landsvirkjun starfar eftir ábyrgum stjórnarháttum.
- Landsvirkjun leitast við að hafa áhrif á virðiskeðju sína.
- Landsvirkjun keppist við að vera í fararbroddi á sviði umhverfismála.
- Landsvirkjun leggur sig fram um að starfa ávallt í góðu samstarfi við samfélagið.
- Landsvirkjun leggur áherslu á að vera leiðandi í heilsu-, öryggis- og starfsmannamálum.
- Landvirkjun deilir þekkingu þar sem hún getur stuðlað að nýsköpun og þróun í atvinnulífi og samfélagi.
Nánari umfjöllun í kaflanum samfélagsábyrgð
Landsvirkjun er þátttakandi í UN Global Compact verkefni Sameinuðu þjóðanna, sem lýtur að hnattrænum viðmiðum um samfélagslega ábyrgð. Þar skuldbindur fyrirtækið sig til að virða viðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu.
Nánari upplýsingar um viðmiðin eru á heimasíðu UN Global Compact
Umhverfisstefna
Starfsemi Landsvirkjunar felur í sér inngrip í náttúruna og krefst þess, eðli sínu samkvæmt, að fyrirtækið marki sér skýra stefnu í umhverfismálum. Umhverfisstefna Landsvirkjunar er eftirfarandi:
Landsvirkjun er í fararbroddi á sviði umhverfismála og stuðlar að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Fyrirtækið leggur áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitast við að draga úr þeim.
Með stefnunni fylgja eftirfarandi fimm stefnumið sem sjá má í töflu hér að neðan.
Á árinu hófst vinna við töluleg markmið þessara stefnumiða, annarra en kolefnishlutleysis og starfsemi án umhverfisatvika sem er eðli sínu samkvæmt núllmarkmið.
auðlinda
- Hönnun nýrra virkjanakosta, breytingar á virkjunum og rekstur þeirra taki ávallt mið af sem bestri nýtingu auðlindanna.
- Styðjast við alþjóðalega matslykilinn HSAP við þróun, hönnun og rekstur orkuvinnslunnar.
- Nýta hugmyndafræði vistferilgreininga (LCA) til að bæta nýtingu auðlinda og draga úr umhverfisáhrifum.
- Stunda vistvæn innkaup og gera kröfur til birgja og þjónustuaðila í umhverfismálum.
- Flokka, endurnýta og/eða endurvinna úrgang.
starfsemi
- Vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna jafnframt að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.
- Stuðla að orkuskiptum í samgöngum og fylgja samgöngustefnu fyrirtækisins.
náttúru og ásýnd
- Stuðla að viðhaldi náttúrlegs fjölbreytileika og lágmarka rask.
- Stuðla að endurheimt vistkerfa og fylgja verklagi fyrirtækisins við vistheimt.
- Fylgja stefnu fyrirtækisins um útlit mannvirkja og landmótun.
hagsmunaaðila
- Vinna samkvæmt hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, m.a. með virku samtali og þátttöku í samstarfsverkefnum með hagsmunaaðilum.
- Stuðla að opinni og málefnanlegri umræðu og gera grein fyrir árangri fyrirtækisins í umhverfismálum.
umhverfisatvika
- Starfa eftir vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi skv. ISO 14001.
- Skilgreina umhverfisþætti starfseminnar, stýra þeim og vakta árangur.
- Tryggja að öllum lagalegum kröfum á sviði umhverfismála sé fullnægt og setja strangari kröfur eftir því sem við á.
- Vinna markvisst að forvörnum og umbótum, m.a. með rannsóknum, markmiðasetningu og með skráningum og úrvinnslu ábendinga.
- Leggja áherslu á að starfsfólk fyrirtækisins og aðrir sem vinna fyrir það hafi yfir að ráða hæfni og þekkingu til að framfylgja umhverfisstefnu fyrirtækisins.
Öryggisstefna
Öryggis-, heilsu- og vinnuverndarstefnan (ÖHV-stefnan) er kjarninn í ÖHV-starfi Landsvirkjunar og er öryggi og góður aðbúnaður starfsmanna forgangsmál í starfsemi fyrirtækisins. ÖHV-mál eru samofin rekstrinum og til þess að tryggja framgang ÖHV-stefnunnar eru notuð tæki sem m.a. eru staðlar, verklagsreglur og framkvæmdaskjöl. Sérstök áhersla er lögð á það að greina og meta áhættu, sem skilar sér í betri líðan starfsmanna og færri slysum. Sérstök áhersla er lögð á fræðslu og þjálfun starfsmanna í málaflokknum.
Ekkert alvarlegt slys í þrjú ár.
Síðastliðin þrjú ár hefur ekkert alvarlegt slys orðið hjá starfsmönnum Landsvirkjunar. Unnið er samkvæmt núllslysastefnu þar sem markmiðið er að engin fjarveruslys eigi sér stað í starfseminni.
Stjórnunarkerfi
Landsvirkjun starfrækir stjórnunarkerfi sem heldur utan um stefnu fyrirtækisins og verklag. Með stjórnunarkerfinu er leitast við að samþætta stjórnun fyrirtækisins og tekur það til allrar starfsemi Landsvirkjunar, höfuðstöðva og aflstöðva. Stjórnunarkerfi Landsvirkjunar er vottað samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.
Stefnumið í stjórnunarkerfinu lúta m.a. að því að veita aðhald við rekstur og skuldbindingar gagnvart viðskiptavinum, starfsmönnum og öðrum hagsmunaaðilum, ásamt því að stuðla að vernd umhverfisins. Markmiðið er að tryggja áreiðanleika starfseminnar með skilvirkni og öryggi að leiðarljósi ásamt því að tryggja að innri sem ytri kröfum sé fullnægt og styðja við stöðugar umbætur með kerfisbundinni rýni og endurmati á frammistöðu fyrirtækisins.