Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar og gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Við leggjum áherslu á að miðla upplýsingum til almennings og skapa umræður og vettvang fyrir sjónarmið og hagsmuni þeirra sem starfsemin hefur áhrif á. Við viljum auðvelda fólki að kynna sér starfsemi okkar.
Stefna um samskipti
Stefna Landsvirkjunar um samskipti við hagsmunaaðila er stoðin sem aðrar stefnur fyrirtækisins hvílir á. Við leggjum mikla áherslu á að tekið sé tillit til samskiptastefnu okkar og henni framfylgt í öllum verkefnum fyrirtækisins.
Stefna okkar um samskipti er að skapa stuðning og samstöðu með opnum samskiptum við hagsmunaaðila.
Það er okkur mikilvægt að sem breiðust sátt ríki um jafnvægið milli umhverfis-, samfélags- og arðsemissjónarmiða í rekstri fyrirtækisins. Við viljum stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins, það er í fararbroddi hvað umhverfismál varðar og áhersla er lögð á samfélagsábyrgð þess. Fyrirtækið uppfyllir ytri kröfur, opinberar, lög og reglur, sem og aðrar kröfur sem gerðar eru til starfseminnar.
Opnir fundir
Landsvirkjun stendur árlega fyrir opnum fundum um starfsemi fyrirtækisins. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og kalla á opin samskipti við hagsmunaaðila um allt land. Á árinu voru haldnir fjórir opnir fundir þar sem fjöldi fólks sótti fyrirtækið heim og kynnti sér starfsemi þess.

Landsvirkjun heldur ársfund á hverju ári. Á fundunum er fjallað um ýmsa stefnumarkandi þætti í starfsemi fyrirtækisins auk þess sem farið er yfir árangur liðins árs og kynnt afmörkuð málefni sem eru ofarlega á baugi hverju sinni. Með fundunum vill Landsvirkjun stuðla að upplýsandi samskiptum um starfsemi fyrirtækisins.
Mikill áhugi ferðamanna á endurnýjanlegri orku
Á árinu framkvæmdi Gallup spurningakönnun fyrir Landsvirkjun sem gefur sterka vísbendingu um jákvætt viðhorf erlendra ferðamanna til endurnýjanlegrar orkuvinnslu á Íslandi. Samkvæmt könnuninni eru 97% erlendra ferðamanna jákvæð í garð endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi. Rannsóknin var framkvæmd á netinu og voru þátttakendur 1.014 talsins.
Jákvæð áhrif á upplifun af íslenskri náttúru
Þá svöruðu þrír af hverjum fjórum, 75%, því til að vinnsla endurnýjanlegrar orku hefði haft jákvæð áhrif á það hvernig þeir upplifðu íslenska náttúru. Eitt prósent taldi hana hafa haft neikvæð áhrif á upplifunina. Tæplega helmingur aðspurðra, eða 46%, lýsti yfir áhuga á því að heimsækja gestastofu í aflstöð í næstu heimsókn sinni til landsins og 37% töldu að aukin vinnsla endurnýjanlegrar orku á Íslandi myndi auka líkurnar á því að þau sæktu landið heim á ný. 93% þátttakenda í rannsókninni höfðu tekið eftir orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum í heimsókn sinni.
Vel heppnað samstarf
Samstarf orkuiðnaðar og ferðaþjónustu hefur gengið vel fram að þessu. Aðgengi og aðstaða sem fylgt hafa orkuframkvæmdum hafa gjarnan komið ferðaþjónustu til góða. Þegar aflstöðvar hafa verið reistar njóta þær, og tengdur rekstur, oft vinsælda hjá ferðamönnum. Góð dæmi um þetta eru Bláa lónið, jarðböðin í Mývatnssveit, Hellisheiðarvirkjun, orkusýningin í Reykjanesvirkjun og gestastofur Landsvirkjunar í Ljósafossstöð, Búrfellsstöð, Kröflustöð og sjálf Kárahnjúkastífla.
Heimsóknir erlendra gesta á þessa staði skipta hundruðum þúsunda á ári hverju og miðað við þróun í fjölda erlendra ferðamanna mun þeim enn fara fjölgandi á næstu árum. Eins og fram kemur í niðurstöðum rannsóknar Gallup telur tæpur helmingur aðspurðra líklegt að í næstu heimsókn heimsæki þeir gestastofu í jarðvarma- eða vatnsaflsstöð. Því er ljóst að tækifæri eru fyrir hendi í orkutengdri ferðaþjónustu á næstu misserum og árum.
„Könnun Gallup staðfestir það sem haldið hefur verið fram um að ímynd Íslands sé samofin endurnýjanlegri orkuvinnslu. Ísland er land grænnar orku í augum ferðamanna, sem finnst mikið til þess koma að öll okkar orkuvinnsla fari fram með endurnýjanlegum hætti.“
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Könnun Gallup gefur til kynna mikinn áhuga meðal ferðamanna á endurnýjanlegri orku. 97% ferðamanna voru jákvæðir í garð endurnýjanlegrar orku og tæplega 46% þeirra lýstu yfir áhuga á að heimsækja gestastofu í aflstöð í næstu heimsókn sinni til landsins. Myndin sýnir auglýsingaskilti Landsvirkjunar í Leifsstöð.
Yfir 30.000 ferðamenn sóttu okkur heim
Í sumar, líkt og fyrri ár, opnaði Landsvirkjun aflstöðvar sínar fyrir gestum sem vildu kynna sér starfsemi fyrirtækisins og raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Tekið var á móti gestum í Ljósafossstöð og Kröflustöð auk þess að leiðsögn var veitt um Kárahnjúkastíflu.
Yfir 30.000 þúsund manns heimsóttu gestastofur Landsvirkjunar og kynntu sér stífluna við Hálslón. Flestir lögðu leið sína í Kröflu eða ríflega 14.200 þúsund manns. Tæplega 13.900 manns heimsóttu gestastofuna í Ljósafossi og 800 manns fengu leiðsögn um Kárahnjúka.
Orkusýningin í Ljósafossstöð opnaði fyrst sumarið 2015 og hlaut á árinu gullverðlaun í hinum virtu alþjóðlegu verðlaunum Red Dot Awards í flokki upplýsingahönnunar ásamt gullverðlaunum í flokki stafrænnar hönnunar í European Design Awards.
Kynntu þér Landsvirkjun á vefnum
Landsvirkjun heldur úti mikilvægri upplýsingamiðlun í gegnum heimasíðu fyrirtækisins bæði á íslensku og ensku en á árinu 2016 heimsóttu í kringum 85.000 notendur vef fyrirtækisins. Fylgjendum á Facebook-síðu fyrirtækisins fjölgaði um 29% á árinu og eru nú 3.488 talsins. Landsvirkjun deildi einnig um 90 færslum á Facebook og fékk 14.400 „like“ á færslur sínar. Fyrirtækið er einnig á Twitter og Instagram.
Landsvirkjun hefur undanfarin ár gefið út bæði árs- og umhverfissskýrslu árlega en frá árinu 2014 hafa þessar skýrslur eingöngu verið gefnar út á rafrænu formi. Markmiðið er að auka aðgengi almennings að árlegu uppgjöri fyrirtækisins og stuðla að virkri upplýsingagjöf um starfsemi þess. Á árinu 2016 heimsóttu tæplega 3.000 lesendur ársskýrsluna og voru síðuflettingar yfir 15.500 talsins. Lesendur umhverfisskýrslunnar voru um 1.300 og voru síðuflettingar tæplega 10.000.
Árs- og umhverfisskýrslur eru aðgengilegar öllum áhugasömum, sem geta einnig kynnt sér fyrirtækið á Landsvirkjun.is, á Facebook síðunni okkar, Twitter og Instagram.
Rafrænt umhverfismat Búrfellslundar
Vindorka er nýr orkukostur á Íslandi og var umhverfismat Búrfellslundar því hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Matið var kynnt með nýjum og nútímalegum hætti til að auðvelda hagsmunaaðilum, fagstofnunum og almenningi að kynna sér verkefnið á stigi þar sem enn er hægt að hafa áhrif á framgang þess. Til viðbótar við hina hefðbundnu skýrslu var útbúin samantekt á mannamáli (non-tech report) og þróuð framsetning á kortum á vefformi til að auðvelda almenningi að kynna sér verkefnið á netinu.

Rafrænt umhverfismat Búrfellslundar hlaut hin virtu Digital Communications Awards í tveimur flokkum og var einnig tilnefnt til Íslensku vefverðlaunanna og hinna alþjóðlegu European Excellence Awards.