Section
Segment

Raforkuvinnsla Íslendinga getur verið öðrum þjóðum fyrirmynd. Byggt hefur verið upp raforkukerfi í strjálbýlu landi þar sem orkuvinnslan er sjálfbær og endurnýjanleg. Landsvirkjun hefur í rúmlega hálfrar aldar sögu sinni verið burðarás í því verki.

Glöggt er gests augað, segir máltækið! Ferðamenn sem hingað koma í auknum mæli veita endurnýjanlegri orkuvinnslu okkar Íslendinga eftirtekt – einkum vatnsaflsstöðvunum og jarðvarmastöðvunum – því fæstir þeirra eiga slíkri orkuvinnslu að venjast í heimalandi sínu. Þeir sjá hinar miklu auðlindir sem hér er að finna og velta vöngum yfir hvernig tekist hefur að beisla þær í þágu verðmætasköpunar og bættra lífskjara þjóðarinnar.

Endurnýjanleg orkuvinnsla er hluti af aðdráttarafli Íslands á meðal erlendra ferðalanga. Kannanir styðja ótvírætt þá staðhæfingu. Ímynd Íslands er þannig samtvinnuð ímynd endurnýjanlegrar og hreinnar orku. Aðsókn ferðamanna að gestastofum Landsvirkjunar og annarra orkuvinnslufyrirtækja ber þessu einnig órækt vitni.

Þjóðir heims eru flestar sammála um að eitt stærsta viðfangsefni nútímans sé baráttan við loftslagsbreytingar. Á loftslagsfundinum í París fyrir skömmu komust þær að samkomulagi um aðgerðir sem miða eiga að því að halda hlýnun andrúmsloftsins innan tiltekinna marka.

Ein stærsta áskorunin sem við blasir í baráttunni við loftslagsbreytingar er að þjóðir heims færi orkuvinnslu sína yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Erlendir gestir okkar Íslendinga eru vanir því að kaupa rafmagn sem unnið er með brennslu jarðefna – gass, olíu og kola. Þeir vita að brýna nauðsyn ber til að þeir geti, líkt og Íslendingar, keypt rafmagn sem unnið er með aðferðum sem losa ekki gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið og vinna þannig gegn áframhaldandi loftslagsvanda.

Mikilvægt er að Íslendingum lánist áfram að nýta auðlindir landsins af skynsemi og framsýni.

Section
Segment
Segment

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að það er ekki markmið okkar hjá Landsvirkjun í sjálfu sér að byggja aflstöðvar, stíflur og önnur mannvirki. Markmið okkar er að hafa jákvæð áhrif á lífskjör íslensku þjóðarinnar, með því að nýta á ábyrgan hátt einstakar orkuauðlindir hennar.

Orkuauðlindir okkar eru þó ekki óþrjótandi. Þess vegna er mikilvægt að nýta þær með sem hagkvæmustum hætti og ná sem mestum verðmætum út úr þeim auðlindum sem við tökum yfirvegaða ákvörðun um að nýta til orkuvinnslu. Með öðrum orðum: Auka framleiðni orkuframleiðslunnar.

Við erum á réttri leið í þessum efnum, því arðsemi Landsvirkjunar hefur verið að aukast síðustu ár og markmiðið er að hún nálgast á næstu árum að verða sambærileg við arðsemi systurfyrirtækja okkar á Norðurlöndunum. Uppgjörið núna er enn ein staðfesting þess, því það sýnir góðan árangur við afar krefjandi aðstæður, m.a. vegna lækkandi álverðs –  afkoma fyrirtækisins er enn að nokkru bundin þróun þess, en draga mun úr þeirri tengingu enn frekar á næstu árum.

Þessi rekstrarþróun hefur átt sér stað með bættri nýtingu raforkukerfisins og endursamningum, sem hafa fært verðið á auðlindinni nær því sem gengur og gerist annars staðar. Raforkuverð til iðnaðar er ekki lengur alltaf lægst á Íslandi, sem er afar ánægjulegt, en um leið er þó mikilvægt að það sé áfram samkeppnisfært.

Með þessari auknu arðsemi og bættri skuldastöðu Landsvirkjunar hillir undir að arðgreiðslur geti hækkað verulega innan nokkurra ára, þegar ekki verður lengur nauðsynlegt að greiða niður skuldir í jafn ríkum mæli og síðustu ár. Eins og komið hefur fram stendur til að stofna svokallaðan stöðugleikasjóð, sem tæki við þeim arðgreiðslum og gæti lagt grundvöll að hagsæld og bættri stöðu þjóðarinnar til framtíðar.