Segment

Hreinar skuldir halda áfram að lækka, á sama tíma og bygging nýrra virkjana stendur yfir

Afkoma Landsvirkjunar á árinu 2016 er vel ásættanleg, þótt hún dragist saman á milli ára. Ytri aðstæður voru ekki hagfelldar á árinu. Álverð var áfram lágt, þótt það hafi farið hækkandi á seinni hluta ársins. Enn eru tekjur okkar að nokkru leyti bundnar við álverð, en vegna endursamninga mun draga úr þeirri tengingu á næstu árum.

Eftirspurn eftir raforku frá fyrirtækinu er nú meiri en framboð. Til að mæta þeirri eftirspurn vinnur fyrirtækið nú að byggingu tveggja virkjana, á Þeistareykjum og við Búrfell, en samhliða því halda þó hreinar skuldir áfram að lækka, sem endurspeglar sterka fjármunamyndun. Lækkun skulda og bætt lánskjör eru að skila sér í umtalsverðri lækkun fjármagnsgjalda sem er mjög mikilvægt rekstrinum.

Section
Segment

Rekstraryfirlit 2016

Rekstrartekjur hafa verið stöðugar þrátt fyrir að álverð hafi verið lágt síðustu ár en markvisst hefur verið unnið að því að draga úr áhrifum þess á tekjur. Nýir samningar og endursamningar við viðskiptavini, á samkeppnishæfu orkuverði, eru ótengdir álverði. Endurnýjaður samningur við Norðurál tekur gildi árið 2019 og er hann tengdur markaðsverði raforku á Nord Pool í stað álverðs.

Selt magn lækkar milli ára þar sem nokkrir viðskiptavinir keyptu minna magn vegna rekstrarvanda. Af þeim sökum var selt magn um 450 GWst lægra en samningsbundið magn. Það er vandkvæðum bundið fyrir Landsvirkjun að endurselja þessa orku samkvæmt samningum. Orkukerfið er fullnýtt og tvær virkjanir í smíðum til að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku.

Section
Segment
Segment

Þrátt fyrir lækkandi álverð og minna selt magn eru rekstrartekjur ársins 2016 nær óbreyttar frá fyrra ári. Kemur það til vegna hækkandi flutningstekna og gengisáhrifa. EBITDA lækkar milli ára en það skýrist af hækkun kostnaðar, einkum vegna gengisáhrifa, almennrar launaþróunar á vinnumarkaði og gjaldfærðs viðhalds aflstöðva. Á síðustu árum hefur markvisst verið dregið úr markaðsáhættu sem skilar stöðugari afkomu.

Section
Segment
Segment

Meðalnafnvextir langtímalána voru um 3,3% á árinu 2016 að teknu tilliti til ríkisábyrgðargjalds. Lækkandi skuldir og lágt vaxtaumhverfi hefur leitt til lægri vaxtagjalda. Þessi þróun er mikilvæg fyrir afkomu grunnrekstrar fyrirtækisins.

Section
Segment
Segment

Landsvirkjun horfir á hagnað fyrir óinnleysta fjármagnsliði við mat á afkomu grunnrekstrar fyrirtækisins. Afkoman nam 118 milljónum USD, lækkun um 13 milljónir USD frá fyrra ári. Helstu áhrifavaldar á afkomu ársins eru EBITDA og vaxtagjöld. Eins og áður hefur komið fram lækkar EBITDA milli ára en á móti hafa vaxtagjöld lækkað verulega. Afkoman hefur bein áhrif á sjóðsmyndun fyrirtækisins.

Section
Segment
Section
Segment

Horfur í rekstri

Með áframhaldandi batnandi rekstri og lækkun skulda skapast svigrúm á næstu árum til að auka arðgreiðslur og endurfjármagna skuldir til langs tíma á hagstæðum vaxtakjörum. Markvisst hefur verið unnið að því að minnka áhrif álverðs, vaxta og gjaldmiðla á afkomu Landsvirkjunar en hún mun þó áfram ráðast að miklu leyti af þróun þessara þátta.

Section
Segment

Fylgiskjöl

Hér má sækja ársreikning Landsvirkjunar 2016 á rafrænu formi. Skjölin innhalda annars vegar ársreikninginn í heild sinni í Acrobat (pdf) skjali og hins vegar helstu stærðir í Excel (xls) skjali. Einnig er hægt að sækja ársskýrsluna í Acrobat (pdf) skjali.