Í grænu bókhaldi Landsvirkjunar er gerð grein fyrir tölulegum upplýsingum um umhverfisáhrif vegna starfsemi fyrirtækisins.
Landsvirkjun er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001 og vinnur markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar. Mikilvægum umhverfisþáttum sem snúa að rekstri Landsvirkjunar er stýrt og þeir vaktaðir, þ.á m. nýting auðlinda, losun í andrúmsloft og vatnsviðtaka, magn og meðhöndlun úrgangs, ásamt fleiri þáttum.
Djúplosun á skiljuvatni stuðlar að betri nýtingu jarðhitakerfisins
Á árinu 2016 féllu til 6.516 þúsund tonn af þétti- og skiljuvatni og var um 4.640 þúsund tonnum af vatninu veitt aftur niður í jarðhitageyminn. Með djúplosun á skiljuvatni er stuðlað að betri nýtingu jarðhitakerfisins um leið og dregið er úr umhverfisáhrifum jarðvarmavinnslunnar á yfirborði. Á undanförnum árum hefur dregið verulega úr losun í yfirborðsvatn á meðan djúplosun hefur aukist en á árinu varð aftur aukning í yfirborðslosun sem rekja má til notkunar á eldri vatnsríkri vinnsluholu.
Frá árinu 1997 hefur farið fram árleg vöktun á uppleystum efnum í grunnvatni í lindum við Mývatn í þeim tilgangi að meta áhrif vegna losunar frárennslisvatns frá Kröflu- og Bjarnarflagsstöð.
Aðferðin sem notuð er við vöktunina byggir á því að fylgst er með náttúrulegum ferilefnum á borð við arsen sem eru í margfalt hærri styrk í frárennslisvatni aflstöðvanna en í grunnvatni. Í mælingum í lindum við Mývatn hefur styrkur arsens alltaf mælst undir umhverfismörkum I, sem þýðir að hætta á áhrifum er mjög lítil eða engin og má því draga þá ályktun að vatnið hafi ekki orðið fyrir áhrifum af frárennslisvatni virkjananna.
Losun brennisteinsvetnis í andrúmsloft
Losun brennisteinsvetnis hefur hingað til verið óhjákvæmilegur þáttur í nýtingu jarðhita á Íslandi, en brennisteinsvetni (H2S) getur haft neikvæð áhrif á bæði fólk og lífríki. Náttúrulegt útstreymi frá jarðhitasvæðum hefur einnig áhrif á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti.
Landsvirkjun fylgist með styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti vegna jarðhitanýtingar á Norðausturlandi. Rauntímaniðurstöður þessara mælinga og árlegar skýrslur eru aðgengilegar á vef Landsvirkjunar. Mælistöð við Reykjahlíðarskólann er sú mælistöð sem liggur næst orkuvinnslusvæði Kröflu og Bjarnarflags.
Niðurstöður mælinga ársins 2016 leiða í ljós að ársmeðaltal fyrir styrk brennisteinsvetnis var innan heilsuverndarmarka, 5 µg/m³ (±3 µg/m³), á öllum mælistöðum. Við Reykjahlíðarskóla fór daglegt hámark 24 klukkustunda hlaupandi meðaltals af styrk brennisteinsvetnis aldrei yfir skilgreind heilsuverndarmörk, 50 µg/m³. Niðurstöður mælinga við Reykjahlíðarskóla má sjá hér fyrir neðan, en þar reiknaðist ársmeðaltal 2016 fyrir styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti 4,6 µg/m³.
Heildarnotkun Landsvirkjunar á jarðefnaeldsneyti hefur dregist saman á undanförnum fimm árum
Í starfsemi Landsvirkjunar er jarðefnaeldsneyti notað á bifreiðar, ýmis tæki og til að knýja varaaflsvélar, auk þess sem haldið er utan um eldsneytisnotkun vegan flugferða starfsmanna.
Á árinu 2016 var heildnotkun jarðefnaeldsneytis 231 þúsund lítrar og að langstærstum hluta dísilolía. Dregið hefur úr notkun jarðefnaeldsneytis á síðustu fimm árum um 13% en mestur samdráttur er í notkun á jarðefnaeldsneyti á farartæki og hefur sú notkun dregist saman um 20% á þessu tímabili. Þennan samdrátt má aðallega rekja til aukinnar notkunar á lífdísil á bifreiðar á Þjórsársvæðinu, en lífdísill er þar ýmist notaður hreinn eða sem íblöndunarefni í jarðefnaeldsneyti.
Kolefnisspor lækkar um 13% frá fyrra ári
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2016 var 48 þúsund tonn CO2-ígildi, sem að stærstum hluta má rekja til orkuvinnslu með jarðvarma (67%) og til losunar frá lónum vatnsaflsvirkjana fyrirtækisins (31%). Enn er unnið að mati á bindingu landgræðslu- og skógræktarsvæða Landsvirkjunar, og er því stuðst við eldra mat á kolefnisbindingu upp á 22 þúsund tonn CO2-ígilda, auk 1 þúsund tonna sem eru kolefnisjöfnuð á vegum Kolviðs. Kolefnisspor Landsvirkjunar er því rúm 25 þúsund tonn CO2-ígildi árið 2016 og lækkar um 13% frá árinu áður. Lækkunina má m.a. rekja til betri nýtingar gufu fyrir hverja framleidda orkueiningu í jarðvarmavirkjunum.
Kolefnisspor Landsvirkjunar = heildarlosun gróðurhúsalofttegunda – kolefnisbinding
Nákvæmara eftirlit og atvikaskráning við framkvæmdir
Á árinu 2016 urðu 13 umhverfisatvik og tengdust þau öll framkvæmdum á vegum Landsvirkjunar, þ.e. við jarðboranir við Kröflustöð, við byggingu Þeistareykjavirkjunar og stækkun Búrfellsvirkjunar. Markmið Landsvirkjunar er starfsemi án umhverfisatvika og hafa atvikin verið fá eða engin á undanförnum árum. Rekja má þessa fjölgun atvika m.a. til vitundarvakningar meðal starfsmanna verktaka og vilja þeirra til að standa vel að umhverfismálum.
Flest atvikanna sem skráð voru á árinu tengdust leka á olíu eða glussa, en önnur atvik tengdust m.a. landspjöllum vegna aksturs utan vega, efnistöku eða gerð hjáleiðar á svæðum sem ekki voru skilgreind í skipulagi og leka úr setþróm fyrir frárennsli frá jarðgangagerðar.
Þegar um olíuleka var að ræða voru atvikin tilkynnt til heilbrigðiseftirlita og gripið var til viðeigandi aðgerða. Í mörgum tilfellum var einnig fundað með öryggis- og umhverfisstjóra verktaka varðandi endurskoðun á verkferlum. Nokkur málanna eru enn í vinnslu.
Grænt bókhald
Hér má sækja grænt bókhald Landsvirkjunar 2016.